Tengja Indland við Norður-Ameríku

Skúli Mogensen kynnti áætlunarflug WOW air á milli Keflavíkur og …
Skúli Mogensen kynnti áætlunarflug WOW air á milli Keflavíkur og Delí á blaðamannafundi í Delí í morgun. mbl.is/RAX

„Það vill þannig til að ef að þú gerir stystu flugleið frá Indlandi til Norður-Ameríku, þá er það yfir Ísland,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air í samtali við mbl.is. Flugfélagið kynnti í morgun nýja flugleið, frá Íslandi til Delí á Indlandi.

Skúli segir að áætlunarflugið, sem hefst þann 6. desember næstkomandi, snúist fyrst og fremst um að tengja Indlandsmarkað við áfangastaði flugfélagsins í Norður-Ameríku. Gríðarlegir möguleikar séu til staðar á þeim markaði.

„Til að setja það í samhengi þá eru 20.000 farþegar sem fara á milli Indlands og Norður-Ameríku á hverjum einasta degi og 87% af þessum farþegum í dag þurfa að tengjast einu sinni eða tvisvar til að komast á lokaáfangastaðinn sinn,“ segir Skúli, sem er staddur í Delí og kynnti flugleiðina á blaðamannafundi þar í morgun.

Flogið verður á Airbus A330neo vélum flugfélagsins fimm sinnum í viku og mun flugtíminn verða 10 og hálf klukkustund. Breiðþoturnar taka 365 farþega í sæti og verða að sögn Skúla stærstu þoturnar sem nokkurn tíma hafa verið í áætlunarflugi til og frá Íslandi, WOW air fær fjórar vélar þessarar gerðar afhentar undir lok ársins.

200 dollarar aðra leið frá Ameríku til Indlands

Verðin sem félagið ætlar að bjóða upp á verða að sögn Skúla lægri en áður hefur sést á flugi á milli Norður-Ameríku og Indlands og lægsta mögulega verðið á þeim legg aðra leið með stoppi á Keflavíkurflugvelli er 200 Bandaríkjadalir, eða rúmar 20 þúsund krónur.

„Eins og alltaf fer það eftir tíma og hvenær þú vilt fljúga, en við vorum að kynna hérna verð sem eru langódýrustu verðin sem sést hafa,“ segir Skúli. Hann segir nýju Airbus-vélarnar vera hagkvæmar í rekstri á svona löngum flugleiðum.

„Þessar vélar eru alltaf að verða betri og betri hvað varðar eldsneytisneyslu og umhverfisvænni og fyrir vikið getum við boðið enn betri fargjöld en áður hefur verið gert á þessum leggjum.“

Viðtökur í Indlandi segir Skúli hafa verið góðar og áhugi þarlendra fjölmiðla á flugleiðinni mikill, en WOW air hyggst ráða framkvæmdastjóra yfir Indlandsstarfseminni í Delí og setja þar upp starfsstöð. Síðan hyggur WOW air á frekari sókn inn á Asíumarkað.

„Tvímælalaust. Við erum bara hæstánægð með Delí sem fyrsta stað og svo sjáum við hvað setur,“ segir Skúli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert