Tuttugu íslenskar stelpur eru á leiðinni á sjálfsvarnarnámskeið í Reno í Nevada þar sem þær munu fá stranga herþjálfun og fá meðal annars kennslu í að beita skotvopnum. Þær munu æfa allt að 8 tíma á dag í 6 daga og fara í gegnum sama kerfi og stelpur sem njósna á átakasvæðum fyrir Bandaríkjaher.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu Jón Viðars Arnþórssonar, stofnanda bardaga- og líkamsræktarklúbbsins Týs, en hann hefur verið að kenna stelpunum fyrsta stig sjálfsvarnarkerfisins ISR CAT (Counter assault tacticts) sem er hannað sérstaklega fyrir konur sem starfa í hættulegum aðstæðum, t.d. njósnara sem sendir eru til Íran, Afghanistan og Mexíkó.
ISR CAT skiptist í sex stig og í Reno munu stelpurnar læra stig tvö og hluta af stigi þrjú. Í því felst meðal annars að læra að bjarga sér úr erfiðum aðstæðum m.a. ef þær eru settar í skottið á bíl eða eru bundnar. Þá munu þær einnig læra að beita skotvopnum og fleiri vopnum, segir Jón Viðar í samtali við mbl.is.
Þjálfarar námskeiðisins eru þrautreyndir í fræðunum og hafa t.d. verið í sérsveitum bandaríska flughersins, FBI og lögreglusveitum í borgum eins og Miami.