Sannfærður um 1:1 „sigur“ á laugardag

Þjónninn batt trefilinn um sig miðjan.
Þjónninn batt trefilinn um sig miðjan. mbl.is/Eggert

„Við römbuðum inn á veitingastað, lögðum þennan fallega íslenska trefil á borðið og fengum ómælda athygli fyrir,“ segir Freyr Ketilsson. Hann og þrír vinir hans gáfu þjóni á veitingastað góða gjöf í morgun en félagarnir ætla að fara á alla leiki Íslands á HM í Rússlandi.

Þeir komu til Moskvu í gærkvöldi og eru strax búnir að finna heimafólk sem mun styðja íslenska liðið. „Þjónninn á veitingastaðnum var það mikill aðdáandi Íslands að hann spurði hvort hann mætti fá trefilinn. Hann hefur verið með hann bundinn um sig síðan, í líklega þrjár klukkustundir,“ segir Freyr.

Við gáfum honum að sjálfsögðu trefilinn til að hann gæti tekið vel á móti öðrum Íslendingum,“ segir Freyr og bætir við að þjónninn ætli, eins og margir aðrir Rússar, að styðja Ísland.

Þjónninn var ánægður með gjöfina frá Íslandi.
Þjónninn var ánægður með gjöfina frá Íslandi. mbl.is/Eggert

Fyrsti leikur mótsins er leikinn í dag og segir Freyr að stemningin á Rauða torginu sé mjög góð en þar hefur í allan dag verið fullt af stuðningsmönnum. „Á veitingastaðnum sem við vorum á var fólk frá flestum þátttökuþjóðum og líka Hollendingar,“ segir Freyr og hlær þegar hann er spurður hvort þeir hafi villst en Hollendingar náðu ekki að tryggja sér sæti á HM.

Þetta er pínulítið óraunverulegt

„Þetta er draumi líkast. Það er pínulítið óraunverulegt að litla Ísland skuli vera á meðal þessara stórþjóða og taka þátt í mótinu með öllum bestu knattspyrnumönnum í heimi.

Freyr og félagar eru bjartsýnir fyrir leikinn gegn Argentínu á laugardag og telja að mikill stuðningur, innfæddra sem og Íslendinga, muni gefa liðinu aukinn kraft. „Við erum sannfærðir um það að Ísland vinni 1:1, ef við getum orðað það svoleiðis.“

Félagarnir skynja að flestir styðji við bakið á íslenska liðinu, nema ef til vill Hollendingar en landsliðið fór illa með þá í undankeppni fyrir EM 2016. „Mögulega hafa Hollendingar eitthvað á móti okkur og kannski Ronaldo. Hann gæti verið vælandi en við látum það ekki á okkur fá!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert