Forsetahjónin svekkt er Gylfi brenndi af

Forsetahjónin og aðrir þjóðhöfðingar gátu ekki leynt vonbrigðum sínum er …
Forsetahjónin og aðrir þjóðhöfðingar gátu ekki leynt vonbrigðum sínum er Gylfi Þór skaut yfir markið. Ljósmynd/Raigo Pajula

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú héldu til Eistlands í opinbera heimsókn á fimmtudag og fundaði Guðni með Kersti Kaljulaid forseta Eistlands á fimmtudag.

Heimsókn forsetahjónanna var farin í tilefni sjálfstæðishátíðar Eista, en um þessar mundir er öld liðin frá því að Eistar lýstu yfir sjálfstæði og stofnuðu lýðveldi.

Dagskrá forsetahjónanna á föstudag var þétt skipuð ýmsum menningarviðburðum í tilefni sjálfstæðisfagnaðarins í háskólaborginni Tartu, en frá þessu er greint á vefsíðu forsetaembættisins. Forsetar Finnlands, Georgíu, Lettlands og Póllands sátu sömuleiðis hátíðardaginn fyrir hönd sinna ríkja.

Í færslunni á vef forsetaembættisins er þó ekki greint sérstaklega frá því að þjóðhöfðingjarnir sex hafi horft saman á leik Íslands og Nígeríu í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu, en frá því var hins vegar sagt á Facebook-síðu forseta Eistlands.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan leyndu vonbrigði forsetahjónanna sér ekki þegar Gylfi Þór Sigurðsson brenndi af vítaspyrnu sinni þegar um tíu mínútur lifðu leiks við bakka Volgu. Eistlandsforseti, sem situr við hlið forseta Íslands, virðist þó helst eiga erfitt með að verjast hlátri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka