„Fullhaustlegt“ veður á landinu

Vindaspá klukkan átta í morgun. Eins og sjá má er …
Vindaspá klukkan átta í morgun. Eins og sjá má er landið tvískipt: Á austurhelmingi þess er vindhraðinn mikill en hægari vindur á vesturhluta landsins. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Spár okkar hafa gengið nokkuð vel eftir,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um hvassviðrið og storminn sem gengur nú yfir austurhelming landsins. „Það hefur í raun ekkert komið okkur á óvart.“

Mestur vindur er nú austanlands. „Þar er vestanátt og stormur víða. Þetta mun halda áfram fram eftir morgninum en á næstu klukkutímum fer að draga úr þessu jafnt og þétt.“

Veðurvefur mbl.is

Sem dæmi um hvar veðrið er verst nefnir Birta að á Gagnheiði hafi vindhraðinn mælst um 30 metrar á sekúndu rétt fyrir átta í morgun. Á Möðrudalsöræfum voru 26 m/s og fyrr í morgun fór vindhraði við Rauðanúp á Norðausturlandi upp í 28 m/s. „Þannig að þetta er ágætis vindur, oft vel yfir tuttugu metrana.“

Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur.
Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Birta segir að vissulega hafi veður sem þetta áður skollið á á þessu svæði en miðað við árstíma sé það þó frekar óalgengt. „Á þessum árstíma eru lægðirnar yfirleitt mun máttlausari þannig að ef ég ætti von á vinum hingað til lands í júní myndi ég nú ekki segja þeim að það væru miklir möguleikar á svona veðri. En það getur auðvitað alltaf gerst. Þetta er fullhaustlegt.“

Um hádegi verður búið að draga töluvert úr vindi. Veðrið verður þó ekki gengið niður á þeim tíma en víðar þá hvassviðri í stað storms. „Í kvöld verðum við komin í 8-13 metra á sekúndu um allt land, ekkert sem við kippum okkur upp við. En núna er staðan þannig að það er spurning hvort trampólín fjúki og aðrir lausamunir.“

Spurð um framhaldið segir Birta ekki sjást til sambærilegra lægða í kortunum. Hins vegar séu skil að koma og því von á vætu af og til. „Við sjáum ekki þennan mikla vind aftur svona í nánustu framtíð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka