Ljósmæður ekki bara til staðar í fæðingu

Jóhanna María Þorvaldsdóttir á von á sínu öðru barni í …
Jóhanna María Þorvaldsdóttir á von á sínu öðru barni í lok júlí. Ljósmynd/Aðsend

„Það er búin að vera rosalega mikil ringulreið í bumbuhópnum,“ segir Jóhanna María Þorvaldsdóttir. Hún er gengin rúmar 37 vikur og á von á sínu öðru barni í lok mánaðarins. Enn hefur ekki verið höggvið á hnútinn í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið en næsti fundur í deilunni er á morgun.

Jóhanna segist sjálf vera nokkuð róleg yfir ástandinu og nefnir tvær ástæður fyrir því. „Ég er afskaplega þakklát fyrir að koma til með að eiga á Akranesi,“ segir Jóhanna en hún býr í Borgarnesi. Auk þess segist hún rólegri vegna þess að barnið sé hennar annað og því hafi hún gengið í gegnum fæðingu áður.

Hefur mikil áhrif á þær sem ganga með fyrsta barn

Þær sem eru að ganga með sitt fyrsta barn vita náttúrulega kannski ekki alveg hvað þær eru að fara út í þannig að ég hugsa að þetta hafi mest áhrif á þær.

Álagið mun aukast á fæðingarstöðunum en í því samhengi hefur verið nefnt að einhverjar konur verði sendar frá höfuðborginni á Akranes eða jafnvel norður í land. Jóhanna veit að engri konu verður vísað frá fæðingardeild en telur slæmt ef einhverjar mæður verða jafnvel sendar heim áður en þær telja sig tilbúnar til heimfarar. „Ég tel að þessi kjarabarátta muni fyrst og fremst hafa áhrif á sængurleguna og þær sem ganga með sitt fyrsta barn.“

Gera margt sem tengist ekki fæðingunni sjálfri

Jóhanna segir að það sé margt í hlutverki ljósmæðra sem ekki tengist fæðingunni sjálfri. Þær fylgist til að mynda með því að brjóstagjöfin gangi eðlilega og að móður, föður og barni líði sem best. 

„Ég hefði aldrei komist í gegnum síðustu fæðingu ef það hefði ekki verið fyrir frábærar ljósmæður. Þær hugsuðu svo vel um mig og ekki bara mig heldur manninn minn líka en þeir virðast oft gleymast í þessu ferli,“ segir Jóhanna.

Hún styður kjarabaráttu ljósmæðra og segir rangt að tala um launahækkun í þessu tilfelli, heldur séu þær að fara fram á leiðréttingu. „Mér finnst þær svo sannarlega eiga skilið að fá launaleiðréttingu.“

Af hverju tekur þetta svona langan tíma?

Síðasti fundur í kjaradeilunni var á fimmtudag í síðustu viku en Jóhanna furðar sig á því hversu langt er á milli funda. Næsti fundur hefur verið boðaður á morgun en samninganefnd ríkisins sagðist þurfa tíma til að vinna að nýju tilboði fyrir ljósmæður og sú vinna tæki tíma enda væri fjöldi starfsmanna í sumarfríi.

„Mér finnst rosalega skrítið að samninganefndin gefi sér svona langan tíma til að hugsa málið og fundi bara með ljósmæðrum einu í sinni í viku. Þó fólk sé í fríi mætti gefa aðeins meiri kraft í málið til að klára þetta. Þetta kemur fyrst og fremst niður á óléttum konum og aðstandendum þeirra.

Hér að neðan má sjá myndskeið þar sem dansandi bumbur hvetja ráðamenn til að ná samningum við ljósmæður sem fyrst:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert