Þó að svigrúm til launahækkana sé lítið þýðir það síður en svo að ekki sé hægt og ekki eigi að bæta kjör, sérstaklega þeirra sem eru á lægstu laununum. Til þess þarf önnur úrræði og þar ber hæst aðgerðir til að auka íbúðaframboð. Slíkt styður við lífskjör til framtíðar en leiðir ekki velmegunarkúna til slátrunar, segir í skoðun Viðskiptaráðs sem gefin var út í morgun.
„Sjaldan hafa raunverulegar kjarabætur í kjölfar kjarasamninga á Íslandi verið jafn miklar og á síðustu árum. Þær kjarabætur má rekja, öðrum atvinnugreinum fremur, til ferðaþjónustu eftir fimmföldun á fjölda ferðamanna á einum áratug. Fyrir utan almennar kjarabætur eru undirstöður hagkerfisins sterkari en áður og erlend skuldastaða einstaklega hagstæð. Í þessu umhverfi hafa 16.000 ný störf í ferðaþjónustu orðið til síðustu 10 ár, sem hefur verið stærsti drifkraftur fordæmalausrar fjölgunar erlendra ríkisborgara. Frá 2010 hefur launþegum af erlendum uppruna fjölgað um 14.000.
Það er því óneitanlega öfugsnúið að kjarabaráttan á Íslandi snúi öðru fremur að einmitt þeirri atvinnugrein sem hefur skapað flest störf, laðað til landsins fólk í leit að betra lífi sem sendir að meðaltali 50.000 krónur heim í hverjum mánuði og greiðir ein hæstu laun í þessum iðnaði á heimsvísu sé skotspónninn í yfirstandandi kjaradeilum. Með því eru fetaðar hættulegar slóðir með lífskjör landsmanna enda er deginum ljósara að í ferðaþjónustu sem og víða annars staðar í atvinnulífinu er lítið svigrúm til launahækkana um þessar mundir. Síðast reyndist vissulega vera meira svigrúm en talið var, enda féll flest með efnahagslífinu árin 2015–2017, og átti það inni kjarabætur eftir batann í kjölfar hrunsins. Ekkert bendir til þess að það sé raunin í dag og hlutirnir eru frekar að snúast gegn okkur,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs en hægt er að lesa hana í heild hér.