Mikið spurt um styttingu vinnuviku

Ragnar Þór við undirritun kjarasamningsins.
Ragnar Þór við undirritun kjarasamningsins. mbl.is/​Hari

Mikið var spurt um styttingu vinnuvikunnar þegar nýr kjarasamningur VR við Samtök atvinnulífsins var kynntur á mánudagskvöld.

Í lífskjarasamningnum var samið um 45 mínútna styttingu á vinnutíma á viku frá og með 1. janúar 2020. Útfærsla styttingarinnar er í höndum hvers vinnustaðar fyrir sig.

Að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, var húsfyllir á fundinum, allt gekk vel fyrir sig og mikið var spurt. „Það sem brann svolítið á fólki var útfærslan á styttingu vinnuvikunnar. Þetta hljómar ekki mikið, níu mínútur á dag, en ef aðrir möguleikar eru teknir sem stendur fólki til boða, m.a. að breyta vinnufyrirkomulaginu og kaffitímunum, þá er þetta umtalsvert mikil stytting,“ segir Ragnar Þór.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/​Hari

Kaffitíminn nýttur 

Hann bendir á að 9 mínútur á dag séu fimm dagar á ári, eða heil vinnuvika, sem sé umtalsverð stytting. Þetta sé umfram það sem hin félögin sömdu um. „Það var mikill áhugi á þessu á fundinum og við erum að undirbúa kynningar til þess að fólk átti sig á þessu.“

Ein af útfærslunum á styttingu vinnuvikunnar er að fólk geti nýtt kaffitímann sinn í formi eins frídags í mánuði eða hálfs dags aðra hverja viku.

Að sögn Ragnars Þórs er nú þegar leyfilegt að vinna af sér kaffitímann til að hætta einn dag í viku, samkvæmt fimmta kafla kjarasamninganna, en útfærslan á þessu hafi ekki verið mikið í umræðunni. Þessi útfærsla ásamt hreinni styttingu um 9 mínútur á dag sem samið var um verður því kynnt á næstunni.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Ásmundur Einar Daðason, félags- og …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/​Hari

Vildu ekki selja frá sér réttindin

Ein af helstu kröfum VR í kjaraviðræðunum við SA var stytting vinnuvikunnar. „Auðvitað hefðum við viljað fá meira en við teljum að þetta sé ásættanleg niðurstaða miðað við að Samtök atvinnulífsins vildu ekki fara í frekari styttingu öðruvísi en að við seldum frá okkur réttindin, meðal annars með lengingu dagvinnutímabils, sem við gerðum ekki,“ greinir hann frá.

Óljós útfærsla vegna skattalækkana

Ragnar nefnir að eitt af því sem er óljóst eftir undirritun kjarasamningsins er að á síðustu metrunum var samið um að ríkið myndi auka skattalækkanir á milli- og lægri tekjuhópa úr 7 þúsund krónum í 10 þúsund og einnig taka út frystingu á persónuafslætti.

Ekki gafst tími til að útfæra nákvæma leið hvað þetta varðar. „Við töldum bara skynsamlegra að ná samningnum sem fyrst þannig að hækkanirnar taki gildi sem fyrst. Það er gríðarlegt hagsmunamál líka fyrir okkar félagsmenn að þetta komi til framkvæmda sem allra fyrst og að launafulltrúar fyrirtækja hafi eins mikinn tíma og hægt er til þess að ganga frá þessu öllu saman,“ segir hann.

„En fundurinn [á mánudagskvöld] var virkilega góður og ég er bjartsýnn á að samningurinn verið samþykktur með töluverðum meirihluta.“

Um 35 þúsund manns eru á kjörskrá, að sögn Ragnars. Rafræn atkvæðagreiðsla hefst á morgun og lýkur henni í hádeginu á mánudaginn næstkomandi. Niðurstaðan verður birt á sama tíma og hjá öðrum stéttarfélögum, eða í kringum 23. apríl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert