Yfirskattanefnd hefur hafnað kröfu er snertir endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna 19 fjórhjóla, en eigandi þeirra taldi ökutækin falla undir vörulið 8701 í tollskrá sem dráttarvélar.
Á þetta féllst tollstjóri ekki og lét fjórhjólin falla undir vörulið 8703 sem ökutæki aðallega gerð til fólksflutninga, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Fram kemur í úrskurði yfirskattanefndar að tollstjóri hafi ekki fallist á kröfu kæranda þar sem fjórhjólin, sem eru af gerðinni Yamaha, gætu ekki dregið a.m.k. tvöfalda þurraþyngd sína eða meira miðað við skráðar upplýsingar hjá Samgöngustofu um dráttargetu. Í málinu var einnig ágreiningur um tollflokkun níu „buggy-bíla“ sem kærandi hafði flutt til landsins, en hann hélt því einnig fram að ökutækin féllu undir vörulið 8701 sem dráttarvélar.