„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um það þegar flugmaður Icelandair lýsti yfir neyðarástandi þegar hann var að koma inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli snemma á mánudagsmorgun.
Lítil einkaþota sem sinnir sjúkraflugi hafði runnið út af flugbrautinni með átta manns innanborðs og hafnað í kanti við enda hennar. Hin flugbraut Keflavíkurflugvallar var lokuð tímabundið vegna ísingar og því átti að senda flugvél Icelandair á Reykjavíkurflugvöll sem var varaflugvöllur í flugáætlun vélarinnar.
Hins vegar var Reykjavíkurflugvöllur lokaður en hann er lokaður allri umferð frá kl. 23 að kvöldi til kl. 7 að morgni alla virka daga og frá kl. 23 að kvöldi til kl. 8 að morgni um helgar samkvæmt starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar.
Njáll Trausti, sem var formaður starfshóps um framtíð innanlandsflugs og var flugumferðarstjóri á Akureyrarflugvelli áður en hann tók sæti á Alþingi 2016, segir að stórefla þurfi varaflugvelli fyrir millilandaflug í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum.
Hann segir að skorið hafi verið niður til varaflugvalla síðan árið 2011 en á sama tíma hafi millilandaflug „belgst út“, eins og Njáll orðar það.
Njáll bendir á að hann hafi skilað skýrslu í desember undir heitinu „Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins sem almenningssamgangna“. Þar hafi meðal annars verið bent á að millilandaflugvellirnir í Keflavík, Reykjavík, Akureyri og á Egilsstöðum yrðu skilgreindir sem kerfi með sameiginlegum kostnaðargrunni og Isavia falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra.
„Á sama tíma og umferð um Keflavíkurflugvöll hefur margfaldast frá 2010 hefur uppbygging varaflugvalla setið eftir,“ segir Njáll. Hann bendir á að sinna þurfi ýmsum framkvæmdum á varaflugvöllunum í Reykjavík, Akureyri og á Egilsstöðum en til þess þurfi aukið fjármagn til flugvallanna.