Jólabjórdagurinn, eða J-dagurinn eins og hann er einnig kallaður, miðast við daginn þegar sala á Tuborg jólabjór hefst á hverju ári. Salan á bjórnum hófst á slaginu klukkan 20:59 í kvöld og tóku Íslendingar hátíðina mjög alvarlega og fjölmenntu í bæinn til að fagna henni.
Ljósmyndari mbl.is kíkti í miðbæinn og á Danska barinn þar sem stemningin var gífurleg. Víða mátti sjá bláa Tuborg-jólasveina í fullum skrúða og flestir ef ekki allir voru með jólabjór í hönd.
J-dagurinn hefur lengi verið haldinn hátíðlegur í Danmörku en í ár var ákveðið að senda skilaboð sem eru meira í takt við tíðarandann.
„Við viljum senda þau skilaboð að þessi viðburður sé fyrir allt fullorðið fólk. J-dagurinn á að vera í samræmi við tíðarandann og þau gildi sem við viljum tileinka okkur,“ segir Kasper Elbjørn, fjölmiðlafulltrúi Carlsberg, eiganda Tuborg, í samtali við danska ríkisútvarpið.