Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri RÚV, verður starfandi útvarpsstjóri þegar Magnús Geir Þórðarson lætur af störfum, en hann hefur verið skipaður þjóðleikhússtjóri frá og með áramótum. RÚV greinir frá því að þetta hafi verið ákveðið á stjórnarfundi Ríkisútvarpsins í dag.
Staða útvarpsstjóra verður auglýst á næstunni og samið verður við Magnús Geir um hvernig starfslokum hans verður háttað á næstunni, að því er segir í frétt RÚV. Ekki kemur fram hvenær ráðning nýs útvarpsstjóra mun taka gildi en ljóst er að Margrét mun gegna starfi útvarpsstjóra þangað til.