Meirihluti landsmanna kýs fremur að fagna jólunum með gervitré en lifandi tré. Tæp tuttugu prósent ætla sér síðan ekki að setja upp jólatré.
Þetta leiða niðurstöður könnunar MMR í ljós sem framkvæmd var 13. til 19. desember. Heildarfjöldi svarenda var 1.014 einstaklingar, 18 ára og eldri.
Samkvæmt könnuninni munu 56% Íslendinga munu setja upp gervitré en 27% lifandi tré. 17% segjast ekki ætla að setja upp jólatré.
Íslendingar á aldrinum 18-29 ára eru líklegri en aðrir aldurshópar til að setja upp lifandi jólatré, en 31% þeirra kýs lifandi jólatré. Hlutfallið lækkar í samræmi við hækkandi aldur.
„Stuðningsfólk Framsóknarflokks (65%) og Miðflokks (59%) reyndist líklegast til að setja upp gervitré en stuðningsfólk Viðreisnar (41%), Samfylkingar (38%) og Vinstri-grænna (36%) var líklegast til að setja upp lifandi tré. Stuðningsfólk Pírata (26%) reyndist hins vegar líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að setja ekki upp jólatré“, segir í frétt MMR um málið.
Á milli ára hefur þeim fækkað sem setja upp lifandi jólatré, ef litið er til fyrri kannana MMR, og fækkar þeim sömuleiðis sem setja upp jólatré yfir höfuð.
„Fjöldi jólatrjáalausra hefur nær tvöfaldast frá því að mælingar MMR á jólahaldi landsmanna hófust árið 2010“, segir í frétt MMR.
Þeim sem setja upp gervitré hefur fjölgað um 6% frá upphafi mælinga.