Trúverðug hviða mældist 71 m/s

Vindhviða undir Hafnarfjalli mældist 71 m/s í morgun.
Vindhviða undir Hafnarfjalli mældist 71 m/s í morgun.

„Við höllumst að því að trúa því, fremur en hitt,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurð um gríðarlega öfluga vindhviðu sem kom fram á mæli undir Hafnarfjalli klukkan rúmlega 10 í morgun. Hviðan mældist 71 m/s og er sú kröftugasta sem mældist í morgun.

Öflugasta þriggja sekúndna vindhviða sem mælst hefur hérlendis var 74,5 m/s og mældist á Gagnheiði 16. janúar árið 1995, samkvæmt grein á vef Veðurstofunnar. Þessi slær því ansi nærri.

„Þetta passar við ýtrustu spárnar sem við sáum og það er þekkt að myndast alveg gríðarlegar vindhviður undir Hafnarfjalli í austanáttum,“ segir Elín. Einhverjir veðurmælar þoldu ekki álagið í fárviðrinu í morgun og til dæmis komu fram truflanir á mæli Vegagerðarinnar að Steinum undir Eyjafjöllum eftir að hviður höfðu mælst 60 m/s og upp úr.

Meðalvindhraðinn fór ekki yfir 30 m/s undir Hafnarfjalli í morgun, …
Meðalvindhraðinn fór ekki yfir 30 m/s undir Hafnarfjalli í morgun, en ein hviða á ellefta tímanum mældist 71 m/s. Tafla/Veðurstofa Íslands

Elín segist vita til þess að Veðurstofan hafi misst einn mæli á Kjalarnesi í morgun, en unnið er að því að vinna yfirlit yfir vindmælingar morgunsins og komast að því hvar mælar urðu fyrir skemmdum eða truflunum.

„Það var alveg við því að búast í þessu veðri,“ segir Elín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka