5.036 hryssur notaðar í blóðmerahald í fyrra

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samtals 5.036 hryssur voru notaðar í blóðmerahald í fyrra af 95 aðilum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.

Í svarinu segir meðal annars að tilgangur blóðmerahalds sé að vinna sérstakt hormón úr blóði fylfullra mera á fyrri hluta meðgöngu þeirra. „Hormónið hefur það hlutverk að viðhalda meðgöngu með því að örva starfsemi eggjastokka og fjölga gulbúum. Hægt er að vinna hormónið úr blóði hryssa á þessu tiltekna tímabili meðgöngunnar og vinna úr því frjósemislyf. Það er einna helst notað til að samstilla gangmál dýra, mest í svínarækt. Frjósemislyfið er notað út um allan heim, en í hverfandi magni á Íslandi. Hryssublóði hefur verið safnað úr fylfullum hryssum í kjötframleiðslu hér á landi í um 40 ár,“ segir í svarinu.

Ágúst Ólafur Ágústsson spurði ráðherra um blóðamerahald.
Ágúst Ólafur Ágústsson spurði ráðherra um blóðamerahald. mbl.is/Hari

Ágúst spurði einnig um hvað gert væri við folöld blóðmera og segir í svarinu að samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er folöldunum alla jafna slátrað til kjötframleiðslu eða þau sett til endurnýjunar. Sum þeirra séu líka nýtt til reiðhestaræktunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert