Opnað verður fyrir framtalsskil 2020, vegna tekna ársins 2019, um næstu mánaðamót. Lokaskiladagur verður 10. mars. Hægt verður að sækja um nokkurra daga viðbótarfrest. Í fyrra var lokafrestur til 12. mars.
Framtalið verður aðgengilegt frá og með næstu helgi á þjónustuvef Skattsins, www.skattur.is og ber öllum þeim sem náð hafa 16 ára aldri í lok árs 2019 að skila skattframtali og telja fram tekjur sínar og eignir, að því er fram kemur á vef Skattsins.
Notast þarf við rafræn skilríki til auðkenningar við innskráningu eða veflykil. Framtöl á pappír heyra sögunni til.
Upplýsingar um t.d. launatekjur, skuldir, fasteignir og aðrar eignir, dagpeninga, hlutabréf, greiðslur og styrki eru forskráðar á framtölin og ætti því meirihluti framteljenda ekki að þurfa að gera annað en að fara vel yfir framtöl sín og staðfesta þau síðan við skil.
Framtalsleiðbeiningar eru komnar á vefinn. Lendi fólk í vandræðum með framtal sitt verður einnig hægt að hafa samband við framtalsaðstoð Skattsins. Útlendingum hefur fjölgað mikið hér á landi á síðustu árum. Leiðbeiningar á erlendum tungumálum eru birtar á vef Skattsins.
sisi@mbl.is