Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, hefur verið synjað um að fá afhent trúnaðarmerkt minnisblað sem þáverandi borgarlögmaður ritaði í kjölfar kaupa Reykjavíkurborgar á húsinu Hverfisgata 41 árið 2016 á 63 milljónir.
Á fundi borgarráðs sl. fimmtudag var lagt fram svar Ebbu Schram borgarlögmanns vegna beiðni Vigdísar. Þar kemur fram að umbeðið minnisblað sé vinnugagn sem falli undir undanþáguákvæði upplýsingalaga almennings og eðlilegt sé að trúnaður gildi um efni þess. Úrskurðarnefnd upplýsingamála hafi árið 2018 staðfest synjun Reykjavíkurborgar á beiðni um afhendingu þess. Sömuleiðis hafi héraðsdómur Reykjavíkur komist að sömu niðurstöðu við rekstur einkamáls fyrir dómstólnum.
Ebba Schram bendir á að í fundarsköpum borgarstjórnar frá 2019 sé borgarfulltrúum heimilt að kynna sér gögn sem eru undanþegin upplýsingarétti á skrifstofu borgarstjórnar. Hún áréttar að umrætt minnisblað sé ekki til afritunar, birtingar, deilingar eða dreifingar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.