Inflúensan sem herjað hefur á landsmenn í vetur virðist hafa náð hámarki og er í rénun. Það er mat Gunnars Arnar Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Læknavaktarinnar.
Óvenjumikið álag hefur verið á Læknavaktinni í janúar og febrúar, meira en undanfarin tvö ár. Það er bæði vegna flensufaraldursins og umgangspesta og nú síðast kórónuveirunnar.
Gunnar Örn hefur skýringarnar ekki á hreinu. Segir að toppar flensufaraldra geti verið misháir eftir árum. Veltir þó upp þeirri hugmynd að ótti vegna mikillar umræðu um kórónuveiruna kunni að valda því að fólk hafi leitað meira til Læknavaktarinnar en ella.