BSRB og aðildarfélög bandalagsins hafa ákveðið að fella niður baráttufund sem boðaður hafði verið á morgun, mánudag, á fyrsta degi boðaðra verkfallsaðgerða. Ákveðið var að hætta við fundinn vegna þess hættuástands sem ríkir vegna COVID-19-faraldursins.
BSRB og aðildarfélög bandalagsins funda stíft hjá ríkissáttasemjara og hafa setið við samningaborðið fram undir miðnætti síðustu daga. Í morgun hófst fundur þeirra klukkan tíu í Karphúsinu.
Ríkið virðist vera ósveigjanlegast í samningviðræðunum, að því er fram kom í máli Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, formanns BSRB. Hún segir að mál hafi þokast eitthvað í gær en það sé þó mismunandi á milli viðsemjenda hvernig gangurinn er í viðræðunum. Þannig sé ágætur gangur í viðræðum bæjarstarfsmannafélaganna innan BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga og fáir lausir endar sem eigi eftir að hnýta þar. Öðru máli gegni um ríkið.
Boðuð verkföll aðildarfélaga BSRB munu hefjast á miðnætti í kvöld, líkt og fram hefur komið, en ákveðið hefur verið að gera undanþágu fyrir sjúkraliða og annað starfsfólk á Landspítalanum og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrstu tvo daga verkfallsins vegna COVID-19-faraldursins. Að öðru leyti munu aðgerðir hefjast samkvæmt áætlun, náist ekki samningar fyrir miðnætti.
Hér fyrir neðan má sjá hvaða hópar það eru sem fara í verkfall og hvenær verkfallsaðgerðir standa yfir.