Ruddi hálfan Vesturbæinn á laugardagsmorgni

Theo gerði nágrönnum sínum mikinn greiða með því að ryðja …
Theo gerði nágrönnum sínum mikinn greiða með því að ryðja göngustíga í morgun. Ljósmynd/Sebastian Storgaard

Týr Theo Norðdahl, ellefu ára gamall drengur úr Vesturbænum, situr ekki auðum höndum þó skólahald sé orðið takmarkað og skíðaæfingar falli niður vegna kórónuveirufaraldursins.

Theo, eins og hann er yfirleitt kallaður, vaknaði snemma í morgun og fór út að ryðja göngustíga fyrir nágranna sína. 

„Hann var vaknaður klukkan átta í morgun. Hann fór út, spurði hvort hann mæti fara út að moka og ég hélt hann væri úti í garði en svo leit ég út um gluggann. Þá sá ég að hann var búinn að fara alveg út að ljósunum og eiginlega alveg út að Ægisíðu, alveg ótrúlega langt,“ segir Guðný Einarsdóttir, móðir Theo, í samtali við mbl.is, en fjölskyldan býr við Kaplaskjólsveg.

„Hann átti afmæli um daginn og bróðir minn gaf honum pening og hann fór í Byko og valdi sér svona snjóruðningsskóflu og er ótrúlega ánægður með hana.“

Guðný segir fullt af fólki hafi nýtt sér góðverk Theo, en það vakti mikla jákvæða athygli í íbúahóp Vesturbæjar á Facebook, þar sem hann var sagður hafa rutt hálfan Vesturbæinn á laugardagsmorgni.

„Það var kona sem skrifaði og þakkaði honum fyrir því hún komst út með barnavagninn. Það var fullt af fólki búið að nýta sér þetta, en hann var ánægðastur að heyra af konunni með barnavagninn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert