Gefi ekki afslátt af kjörum félagsmanna

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegna vísunar í umræður á vettvangi samninganefndar ASÍ vil ég taka fram að ég hef fyrir hönd Eflingar hafnað því með öllu að frekari byrðum vegna Covid-19-faraldursins, umfram það sem þegar er, verði velt yfir á vinnandi fólk,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook.

Vil­hjálm­ur Birg­is­son, Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son og Harpa Sæv­ars­dótt­ir hafa öll sagt sig frá störf­um ASÍ í kjöl­far ágrein­ings um viðbrögð við kór­ónu­veirufar­aldr­in­um. Vil­hjálm­ur og Ragn­ar Þór voru á meðal þeirra sem vildu að mót­fram­lag at­vinnu­rek­enda í líf­eyr­is­sjóð yrði tíma­bundið skert til að aðstoða fyr­ir­tæki en til­lög­unni var hafnað.

Sólveig harmar að Vilhjálmur hafi sagt af sér sem 1. varaforseti ASÍ. Hann hafi verið óþreytandi baráttumaður fyrir bættum hag verkafólks og heimila og öflugur bandamaður Sólveigar og Eflingar undanfarin ár.

Afstaða Sólveigar er á þá leið að ef frekari stuðningsaðgerða við vinnumarkaðinn sé þörf eigi ríkið að standa við fyrirheit sín um viðbótaraðgerðir, til að mynda með frekari rýmkun hlutabótaleiðarinnar eða tímabundinni lækkun tryggingagjalds.

„Mikið svigrúm er til staðar í fjármálum hins opinbera og núverandi aðgerðapakki enn talsvert minni en það sem sést hefur hjá nágrannalöndum. Meðan svo er get ég ekki fallist á að verkalýðshreyfingin gefi afslátt af kjörum sinna félagsmanna, allra síst láglaunafólks sem nú þegar berst í bökkum og hefur gert lengi. Ég hafna því að verkalýðshreyfingin taki frumkvæði að tillögum um slíkt. Þessu hef ég komið skýrt á framfæri á vettvangi Alþýðusambandsins,“ skrifar Sólveig Anna og heldur áfram:

„Engum dylst að miklir gallar eru á mörgum þáttum íslenska lífeyriskerfisins, en það getur ekki þýtt að láglaunafólk sem þiggur smánarlega lágar lífeyrisgreiðslur við starfslok eigi að nota þær greiðslur til að kaupa atvinnurekendur frá kostnaði við að standa við kjarabætur sem unnust með harðri baráttu verkafólks. Ég hvet til þess að verkalýðshreyfingin standi saman og vinni af yfirvegun við úrlausn þeirra miklu verkefna sem við okkur blasa vegna Covid-19-veirufaraldursins.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert