Eins og staðan er núna þá bendir ekkert til þess að yfirvofandi verkfallsaðgerðum félagsmanna Eflingar í Kópavogi, á Seltjarnarnesi og fleiri sveitarfélögum verði aflýst áður en það hefst á þriðjudaginn segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is.
Síðasti fundur samninganefndar Eflingar og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram á fimmtudaginn í húsakynnum ríkissáttasemjara en hann bar ekki árangur. Næsti fundur hefur verið boðaður á morgun.
Verkfallið er boðað hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi. Það hefst á hádegi þriðjudaginn 5. maí, daginn eftir að samfélagstakmarkanir verða rýmkaðar og skólahald getur hafist aftur á eðlilegan hátt.
Verkfallið mun taka til fólks sem sér um ræstingar í fjórum af 21 leikskóla og fjórum af níu grunnskólum í Kópavogi og ljóst þykir að þeir munu þurfa að loka fljótlega aftur eftir að eðlilegt skólahald hefst. Verkfallið hófst í síðasta mánuði en var frestað í tvær vikur vegna kórónuveirufaraldursins.
Efling krefst þess að fá sams konar samning og félagið gerði við Reykjavíkurborg, fyrir sömu störf. Efling hefur einnig náð fram sambærilegri leiðréttingu í samningum við ríkið og Faxflóahafnir. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga býður sama samning og samið hefur verið um við Starfsgreinasamband Íslands.
Viðar segir engar vísbendingar hafa komið fram um það frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að samningsaðilar séu að þokast nær samningi og það sé erfitt að sjá fyrir að verkfallinu verði aflýst áður en það hefst.
„En við bindum vonir við það að það náist saman. Það er fundur á morgun hjá ríkissáttasemjara og það er mjög einfalt að klára þetta mál á sömu forsendum og gert var gagnvart ríkinu, borginni og Faxaflóahöfnum. Spurningin er bara um ákvörðun hjá hinum aðilanum,“ segir hann.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur látið hafa það eftir sér að fyrirhugað verkfall sé óskiljanlegt og telur að það þurfi jafnvel að setja lög á verkfallið.
„Mér þætti það merkilegt ef að þingmenn sem voru að skaffa sjálfum sér afturvirkar launahækkanir langt umfram lífskjarasamninginn ætluðu að fara setja lög á kjarabaráttu láglaunafólks á þessum tímapunkti,“ segir Viðar spurður um ummæli Aldísar.