„Ömurlegt að þurfa að standa í þessu“

Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla, er ósáttur með að samninganefndir Eflingar …
Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla, er ósáttur með að samninganefndir Eflingar og SÍS hafi ekki náð saman. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta hefur alveg gífurleg áhrif því þetta stöðvar alla starfsemi í húsinu. Við getum þá ekkert annað gert en að halda uppi fjarkennslu eins og við höfum gert frá 11. mars.“

Þetta segir Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla í Kópavogi,  í samtali við mbl.is spurður að því hvaða áhrif það muni hafa á starfsemi skólans að samningafundi Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara hafi verið slitið án árangurs fyrr í kvöld.

Það þýðir að verkfall félagsmanna Eflingar í Kópavogi, á Seltjarnarnesi og í fleiri sveitarfélögum hefst á hádegi á morgun. Verkfallið mun taka til fólks sem sér um ræstingar í fjórum af 21 leikskóla og fjórum af níu grunnskólum í Kópavogi, þar á meðal Salaskóla.

„Krakkarnir og starfsfólk munu mæta á morgun og við höldum úti skólastarfi allan morgundaginn en svo verðum við að loka vegna þess að það eru miklu strangari kröfur um þrif núna en í venjulegu árferði,“ útskýrir Hafsteinn. Hann telur að skólinn hefði mögulega getað haldið úti starfsemi fram að helgi ef aðstæður væru eðlilegar og enginn faraldur til staðar.

Tveir dagar af eðlilegu skólahaldi

Tilslökun á samkomubanni tók gildi á miðnætti og þar með voru ekki lengur takmarkanir á starfsemi leik- og grunnskóla. Hefðbundin starfsemi þeirra hófst því að nýju í dag en nú er ljóst að einhverjum þeirra mun þurfa að loka aftur eftir einungis tvo daga af eðlilegu skólahaldi.

„Þetta er bara „bömmer“. Mér finnst ömurlegt að þurfa að standa í þessu. Við erum þarna með tvær samninganefndir sem hafa haft nægan tíma. Ég get ekki ímyndað mér að það beri mikið á milli en ég veit samt ekkert um það, en mér finnst þetta bara alveg ömurlegt,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka