Tóku breytingar á mynd af Bubba lengra

Hér hefur einni sígarettu verið skipt út fyrir fjölda þeirra. …
Hér hefur einni sígarettu verið skipt út fyrir fjölda þeirra. Björgvin Pálsson tók upphaflegu myndina. Breytt mynd/Brandenburg

Auglýsingastofan Brandenburg birti í dag 21 útgáfu af þekktri mynd af Bubba Morthens sem er á markaðsefni söngleiksins Níu lífa sem fjallar um ævi Bubba og er sýndur í Borgarleikhúsinu. Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær fjarlægði Borgarleikhúsið sígarettu Bubba af öllu helsta markaðsefni söngleiksins vegna kvartana.

Þá sagði markaðsstjóri Borgarleikhússins að leikhúsinu hafi verið greint frá því að það væri í raun ólöglegt að birta sígarettur á auglýsingum þrátt fyrir að markmiðið væri ekki að auglýsa tóbak heldur söngleik. 

Bubbi vel varinn fyrir COVID-19, eða jafnvel Bubbi ef hann …
Bubbi vel varinn fyrir COVID-19, eða jafnvel Bubbi ef hann hefði valið að gerast skurðlæknir. Breytt mynd/Brandenburg

Myndin í skammarkrók Zuckerberg

Af þessu tilefni ákvað Brandenburg að leika sér aðeins meira með myndina og segir í færslu auglýsingastofunnar á Facebook að meðalvegurinn í Auglýsingalandi sé vandrataður. 

„Eins og fram hefur komið lenti markaðsefni sem unnið var fyrir Níu líf Bubba Morthens í Borgarleikhúsinu, í skammarkróknum hjá Zuckerberg og félögum. Þá var ekkert annað að gera en að bregðast við og fjarlægja sígarettuna enda Bubbi löngu hættur.“

Sjávarútvegs-Bubbi er hér mættur á svæðið.
Sjávarútvegs-Bubbi er hér mættur á svæðið. Breytt mynd/Brandenburg

Myndin er tekin árið 1981 en Bubbi skildi við tóbak árið 2005. Í kjölfar fréttarinnar af sígarettuleysi Bubba fengu teiknarar Brandenburg þá áskorun að „skipta rettunni umdeildu út fyrir hitt og þetta. En Bubbi er auðvitað langbestur — án tóbaks“, segir í færslunni.

„Mökkreykti“ á þessum tíma

Myndinni var fyrst breytt í facebook-auglýsingum Borgarleikhússins á söngleiknum fyrir áramót. Í viðtali við Morgunblaðið sem birtist í gær sagði Bubbi um það:

„Bubbi á þeim plakötum bara ákvað að hætta að reykja. Við erum komin í þjóðfélag þar sem stóri bróðir er kominn yfir og allt um kring, hvort sem okkur líkar betur eða verr.“

Þá fær Bubbi einnig vænan vindil í boði Brandenburg.
Þá fær Bubbi einnig vænan vindil í boði Brandenburg. Breytt mynd/Brandenburg

Myndin er frá árinu 1980 og er tekin rétt hjá Naustinu í Vesturbænum. Bubbi sagði miður að ekki megi sýna sanna mynd af því sem var.

„Ég byrjaði að reykja sex ára gamall og ég mökkreykti 1980. Það væri mjög ankannalegt að ætla að fara að ritskoða það með einhverjum hætti. Það er bara kjaftæði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka