„Þingmannsstarfið mjög útsett“ fyrir áreitni

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis segir það miður að sjá hve hátt hlutfall þingmanna hafi orðið fyrir áreitni eða einelti í starfi sínu. Niðurstöðurnar séu veruleiki sem horfast þurfi í augu við. 

Alþingi birti í gær niðurstöður könnunar á starfsumhverfi þingsins. Samkvæmt könnuninni hafa tæp 38% þingmanna orðið fyrir einelti og tæp 30% þingmanna töldu sig hafa orðið fyrir áreitni, það er hegðun sem er ítrekuð og ógnandi. 

Steingrímur sagði á Alþingi í gær að niðurstöðurnar væru „slá­andi“. Í samtali við mbl.is segir hann greinilegt að þingmannsstarfið sé mjög útsett fyrir þessum þáttum. 

„Því miður skorar þingmannahluti úrtaksins hærra í flestum lykilspurningunum, bæði er varðar einelti, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Það er greinilegt að þingmannsstarfið er mjög útsett.“

„Þetta kann að skýrast að einhverju leyti af því að við spyrjum ekki bara um vinnustaðinn Alþingi, heldur um allt sem tengist þingmennskunni sem starfi. Sérfræðingarnir segja að það sé mjög líklegur áhrifaþáttur í því að hækka skorið þegar þingmenn eiga í hlut. Þetta snýr líka að því sem þingmenn sæta úti í samfélaginu og áreitni sem þeir verða fyrir annars staðar en á vinnustaðnum Alþingi,“ segir Steingrímur. 

„En þetta var því miður það sem maður gat búið sig undir. Við verðum að horfast í augu við það að í tilviki þingmanna skorum við hærra en á almenna vinnumarkaðinum.“ 

Hvorki upphaf né endir umræðunnar

Til stendur að jafnréttisnefnd Alþingis muni ræða eftirfylgni með könnuninni. Steingrímur segir það mikilvægt að könnunin leiði til umræðu og viðbragða við niðurstöðunum. 

„Við munum vinna úr þessari könnun og ég hef lagt áherslu á það að þetta sé hvorki upphaf né endir þessara mála hjá okkur. Þetta er framhald af viðbrögðum þingsins við MeToo-hreyfingunni, þegar við héldum rakarastofuráðstefnuna og breyttum siðareglum. Við höfum verið að vinna með þessi mál og munum gera áfram. Það er svo mikilvægur hluti af þessu, að viðhalda og opna umræðuna, halda henni gangandi og líta ekki undan. Þetta er ekki eitthvað sem má gleymast og rykfalla ofan í skúffu, þessi skýrsla.“

Steingrímur segir það koma til greina að fylgja skýrslunni eftir með frekari athugunum á tilteknum þáttum. Hann telur það gagnlegt að gera sambærilega könnun einu sinni á kjörtímabili svo hægt sé að fylgjast með þróuninni. 

„En ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt að við gerðum þessa könnun núna til að vita hvar við stöndum, hafa þennan grunn til að byggja umfjöllun á.“

Þá segir hann mikinn áhuga vera fyrir könnuninni á hinum Norðurlöndunum. 

„Það er vitað af því á hinum Norðurlöndunum að við höfum verið að gera þessa könnun og hún er sennilega sú viðamesta og augljóslega sú nýjasta sem hefur verið gerð á þjóðþingi á Norðurlöndunum. Ég veit að kollegar mínir hafa fylgst með þessu og bíða eftir að fá að sjá niðurstöðurnar. Þetta er auðvitað eitthvað sem allir þurfa að takast á við.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka