Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra segir ekki annað koma til greina en að Reykjavíkurborg virði samkomulag ríkis og borgar um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð.
Þetta kemur fram í færslu Sigurðar á Facebook í kjölfar fregna þess efnis að viðhaldsstöð flugfélagsins Ernis við Reykjavíkurflugvöll verði rifin, bótalaust, vegna nýs skipulags.
Skýli flugfélagsins stendur nærri ströndinni þar sem ráðgert er að Fossvogurinn verði brúaður frá Vatnsmýrinni og yfir til Kársness. Leggja á veg þar sem skýlið stendur samkvæmt áætlunum borgaryfirvalda.
„Fyrirhugaðar vegaframkvæmdir sem voru í fréttum í gærkvöldi eru innan flugvallargirðingar og verða aldrei án samþykkis Isavia,“ skrifar Sigurður og heldur áfram:
„Áform um að leggja veg í gegnum friðað hús eru fráleit og engin sómakær sveitarfélög taka heldur eignir bótalaust af íbúum sínum. Allra síst aðilum sem hafa þjónað sjúkraflugi og líffæraflutningum fyrir landsmenn í áratugi. Þannig hagar sér enginn.“