Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir það ekki koma á óvart að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hafi ákveðið fyrir helgi að ljúka athugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna tengsla hans við sjávarútvegsfyrirtækið Samherja.
„Það sem er hins vegar alvarlegt er hvernig meirihlutinn ráðskast með hlutverk sitt með þeim hætti að þau telja það duga að henda inn einni bókun til að stoppa mál og koma í veg fyrir frekari umfjöllun,“ sagði Þorgerður við upphaf þingfundar í dag. Segir hún meirihlutann vera að bjóða upp á feluleik með þessari framkomu. „Það er ekkert smámál að draga tennurnar úr eftirlitshlutverki Alþingis.“
Þorgerður sagðist gera sér grein fyrir því að Samherjamálið sé afar viðkvæmt fyrir ríkisstjórnina. „En burtséð frá því þá eru þessi vinnubrögð óboðleg og sannarlega ekki hluti af margboðaðri eflingu Alþingis.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, gerði bókun nefndarinnar einnig að umtalsefni á þinginu í dag en hún tilheyrir minnihluta nefndarinnar sem gagnrýnir að frumkvæðisathuguninni á hæfi ráðherra sé lokið með þessum hætti.
Hún sagði þetta þýða að Kristján Þór, sem sagði á opnum fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í janúar að hann hefði ekkert að fela í þessu máli, geti nú „falið sig á bak við það að meirihluti nefndarinnar hafi ákveðið að þar sé ekkert að finna, ekkert að sjá hér eins og sagt er“.
„Meirihlutinn sem sagt rannsakar sjálfan sig og kemst að því að það sé ekkert athugavert við stjórnarhætti síns ráðherra. Það er auðvitað ekki mjög trúverðug niðurstaða,“ sagði Þórhildur Sunna.
Að hennar mati hefði meirihlutinn átt að afgreiða málið með skýrslu að aflokinni gagnaöflun og gestakomum svo hægt verði að ræða málið í þingsal. „En, meirihlutinn hefur ekki minna að fela en svo að hann getur ekki hugsað sér að ræða þetta mikilvæga mál í þingsal.“