Pétur Magnússon
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var spurð út í möguleika á lokun landsins ef önnur bylgja kórónuveirunnar riði yfir landið. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, spurði ráðherra út í málið á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Spurði Gunnar Bragi um hvernig brugðist yrði við ef önnur bylgja veirunnar ætti sér stað, og hvort plön væru til staðar um að loka landinu á ný ef svo yrði. Í mörgum löndum hafi orðið bakslag og segir Gunnar að margir sérfræðingar búist við annarri bylgju
„Það yrði mikið áfall ef við þyrftum aftur að loka landinu,“ sagði Þórdís Kolbrún í svari sínu. „Ég ætla ekki að gerast spámaður um það hvað kann að verða vegna þess að við vitum svo ofboðslega lítið þrátt fyrir að við vitum miklu meira nú en áður.“ Ráðherra sagði að núverandi aðgerðir fælu í sér ásættanlega áhættu, en stjórnvöld væru búin undir að takast á við mögulega seinni bylgju og að mikill sveigjanleiki sé byggður inn í átakið gegn veirunni.
Hún sagði ennfremur, að ef metið yrði að ekki væri hægt að hafa landið opið, þá yrði landinu lokað á ný.
Aðgerðir Íslands byggist fyrst og fremst í að skima þá sem koma til landsins, og veiti sú nálgun mikilvæga yfirsýn og góðar vísbendingar um hvernig skal bregðast við mögulegu bakslagi.