Rætt hefur verið hvort rifta eigi samkomulagi ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar er kveður á um að stjórnarandstaðan fari með formennsku í þremur fastanefndum Alþingis.
Þetta herma heimildir Morgunblaðsins innan úr ríkisstjórnarflokkunum. Þingnefndirnar sem um ræðir eru stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd.
Er þetta jafnframt ekki í fyrsta sinn sem framangreind tillaga hefur komið til tals, en töluverðrar óánægju hefur gætt meðal þingmanna ríkisstjórnarflokkanna með fyrirkomulagið. Telur fjöldi þingmanna meirihlutans að formennska viðkomandi flokka hafi ekki gefið góða raun. Þá voru sömuleiðis miklar efasemdir um fyrirkomulagið strax frá upphafi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Alls eru fastanefndirnar átta talsins og því er ljóst að stjórnarandstaðan fer með formennsku í nær helmingi allra þingnefnda. Formennska í framangreindum nefndum hefur fallið í hlut þriggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna; Miðflokksins, Pírata og Samfylkingar.