Kauptún, eina verslun Vopnfirðinga sem selur nauðsynjavörur, verður áfram rekin á Vopnafirði en nýir eigendur taka við versluninni þann 1. júlí næstkomandi, „vonandi í 30 ár til viðbótar“, eins og segir í Facebook-færslu Kauptúns.
Morgunblaðið hefur áður greint frá yfirvofandi lokun Kauptúns en Árni Róbertsson, eigandi verslunarinnar, ákvað fyrir nokkru síðan að hætta verslunarrekstri eftir þrjátíu ára rekstur á Vopnafirði. Þar til nú var útlit fyrir að skellt yrði í lás um mánaðamótin en því hefur verið afstýrt.
Nýir eigendur eru Berghildur Fanney Oddsen Hauksd. og Eyjólfur Sigurðsson.
„Langar okkur að biðja ykkur Vopnfirðinga að taka eins vel á móti þeim eins og þið hafið tekið okkur síðustu 30 árin. Eins og við þekkjum vel þá er þessi rekstur ekki sjálfsagður hlutur hérna á landsbyggðinni og tökum við fráfarandi eigendur og rekstraraðilar, hattinn ofan fyrir þeim og treystum þeim til að verða okkar litla byggðarlagi til sóma um ókomin ár“, segir í Facebook-færslu Kauptúns.
Afgreiðslutímar munu ekki breytast að því frátöldu að búðin lokar eilítið fyrr 30. júní vegna vörutalningar.