Nýtt spálíkan – „Líst ekkert alltof vel á blikuna“

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísindamenn Háskóla Íslands hafa nú gefið út sitt síðasta spálíkan um þróun kórónuveirufaraldursins á þessu ári. Samkvæmt því er staðan á Íslandi öfundsverð en þó blikur á lofti. Spálíkön annars staðar frá gera ráð fyrir að mögulega hefjist ný bylgja úti í heimi að janúarmánuði loknum. 

Á facebooksíðu sinni segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, að vísindamenn Háskólans séu bjartsýnir en raunsæir. 

„Okkur líst ekkert alltof vel á blikuna,“ segir hann.

Við á covid.hi.is kveðjum með yfirliti og horfum til 2021. Okkur líst ekkert alltof vel á blikuna. En erum bjartsýn en líka raunsæ. Takk fyrir samfylgdina 2020.

Posted by Thor Aspelund on Fimmtudagur, 17. desember 2020

Nota gögn Facebook um ferðir fólks

Vika er til jóla og greinilegt að umsvif eru að vaxa í þjóðfélaginu,“ segir á vef spálíkansins. Umsvif í þjóðfélaginu eru meðal annars mæld með aðstoð gagna frá Facebook, sem safnar saman gögnum um ferðir fólks. Þau gögn hafa undanfarið sýnt að landsmenn færi sig mögulega um of milli staða og ferðist of mikið. Ferðir fólks lögðust nær af í miðri fyrstu bylgju en því var ekki að heilsa í miðri þriðju bylgju  raunar eru þjóðfélagsumsvif á stöðugri uppleið.

„Með auknum umsvifum og hreyfingu fólks aukast líkur á dreifingu veirunnar,“ segir feitletrað í spálíkani HÍ.

Gögn sem Facebook safnar um ferðir landsmanna sýna hvernig þjóðfélagsumsvif …
Gögn sem Facebook safnar um ferðir landsmanna sýna hvernig þjóðfélagsumsvif snarminnkuðu í miðri fyrstu bylgju. Það gerðu þau aftur í miðri þriðju bylgju, í minna mæli þó, en eru aftur á uppleið. Graf/Háskóli Íslands

Tvöföld skimun fimmtíu sinnum betri en einföld

Í spálíkani HÍ er einnig komið inn á mikilvægi landamæraskimunar, sér í lagi vegna versnandi stöðu erlendis. Álag á landamærin er sagt vera að aukast og því sé mikilvægt að halda í tvöfalda skimun á landamærum. 

Oft var þörf en nú er nauðsyn að virða sóttkvína við heimkomu,“ segir skýrt í umfjöllun um líkan HÍ.

Þá er gerður samanburður milli fyrirkomulagsins á landamærum nú og því sem einu sinni var. Við komuna til Íslands er nú hægt að velja um að sæta 14 daga sóttkví eða fara í skimun á landamærum og svo öðru sinni að lokinni 4-6 daga sóttkví. Með því fyrirkomulagi sleppur aðeins eitt smit í gegnum landamærin á hverja 10 þúsund farþega, á meðan 50 smit slyppu í gegn á hverja 10 þúsund farþega ef aðeins væri skimað einu sinni.

Stefnan engu að síður góð

Þrátt fyrir varnaðarorð á undan segir í umfjöllun um líkanið að stefnan hér á landi sé góð. Vegna sóttvarnaaðgerða og góðrar þátttöku almennings hefur kúrfan legið niður á við eins og fræðin gera ráð fyrir. Hins vegar komu bakslög vegna stórra og erfiðra hópsmita, og er þá átt við þriðju bylgju faraldursins. 

Þakka má öflugri smitrakningu og áframhaldandi aðgerðum að tókst að ná utan um þau og faraldrinum niður á ákveðna braut. Það var séð fyrir að þessi bylgja yrði lengi að deyja út. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita að bakslög þurfa ekki að slá okkur út af laginu. Þolinmæði og úthald skilar sér.“

„Spá um þróun COVID-19 á Íslandi frá 23. september. Svartir …
„Spá um þróun COVID-19 á Íslandi frá 23. september. Svartir punktar notaðir til að búa til spá. Appelsínugulir raunveruleg þróun,“ segir fyrir neðan þetta graf í spálíkani HÍ. Graf/Háskóli Íslands



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert