„Það rignir hér enn“

Þórhallur Árnason aðalvarðstjóri.
Þórhallur Árnason aðalvarðstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Aðstæður eru ósköp svipaðar, það rignir hér enn,“ segir Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi, um stöðu mála á Seyðisfirði.

„Við vitum ekkert hvernig framhaldið verður,“ segir hann en vonar að það fari að létta til.

Aðspurður segir hann bæjarbúa reyna að taka hlutunum eins og þeir eru og vinna úr aðstæðum eins og hægt er. „Þetta hlýtur sjálfsögðu að vera áfall fyrir bæjarbúa að upplifa þetta,“ segir Þórhallur og talar um að önnur eins vætutíð og samfelld rigning verði ekki nema á 50 ára fresti á svæðinu samkvæmt Veðurstofu Íslands. Jafnvel hafi menn nefnt á 100 ára fresti.

Aðgerðir lögreglunnar snúast fyrst og fremst um að tryggja öryggi bæjarbúa og takmarka umferð inn á svæðið. Einnig er reynt að stýra umferðinni innanbæjar, hvort sem það er hjá almenningi, fjölmiðlafólki eða öðrum, og reynt að hlúa að fólki sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín.

Nota dróna til að mynda

Þórhallur segir erfitt að segja til um frekari skriðuföll. „Að mér skilst féllu tvær skriður hérna úr Nautaklaufinni í nótt. Það féll stór skriða úr henni síðasta þriðjudag. Að mér skilst er ekki vitað hvor það sé eitthvað í miðjunni á Nautaklaufinni sem gæti fallið niður. Það kemur í ljós með birtingu,“ segir hann og bætir við að farið verði með dróna á svæðið á eftir frá lögreglunni til að meta aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert