Húsasmiðjan styður Seyðfirðinga

Þorstein Óli Kjerúlf rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum afhendir Berglindi Sveinsdóttur …
Þorstein Óli Kjerúlf rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum afhendir Berglindi Sveinsdóttur formanni Rauða krossins í Múlasýslu styrk upp á tvær milljónir. Ljósmynd/Aðsend

Húsasmiðjan afhenti í dag Rauða krossi Íslands í Múlasýslu tveggja milljóna króna styrk, í formi inneignar til að aðstoða þá íbúa Seyðisfjarðar sem mesta hjálp þurfa á að halda eftir hamfarir síðustu daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Hugur okkar allra er hjá íbúum á Seyðisfirði og við erum eins og landsmenn allir slegin yfir þessum hamförum. Þetta er sérstaklega erfitt fyrir þá sem hafa misst heimili sín nú rétt fyrir jólin og óvissan hjá þeim fjölskyldum er mikil. Við viljum því rétta fram hjálparhönd til vina okkar á Seyðisfirði og leggja okkar af mörkum,“ segir Þorsteinn Óli Kjerúlf, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum í tilkynningunni.

Berglind Sveinsdóttir formaður Rauða krossins á Egilsstöðum segir að það sé dýrmætt að finna þann samhug sem ríkir í samfélaginu og styrkurinn muni koma sér vel.

Kölluðu eftir neyðarsendingu

Þorsteinn Óli segir í tilkynningunni að starfsfólk Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum hafi fylgst vel með aðgerðum og að hreinsunarstarf og björgun verðmæta sé nú að hefjast. Sem dæmi hafi þurft að kalla eftir neyðarsendingu með flugi úr vöruhúsi Húsasmiðjunnar í Reykjavík um helgina með skóflum, hrífum, og fleiru sem þarf til hreinsunarstarfsins.

Hann bætir því einnig við að starfsmenn Húsasmiðjunnar séu alvanir því að standa vaktina allt árið um kring og opna timbursölur sínar og verslanir fyrir björgunarsveitum kvölds og morgna í veðurofsum á veturna eða á öðrum tímum þegar á þarf að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert