Hildur Leifsdóttir, lögmaður Eldum rétt, segir tilefni til þess að skoða hvort höfða beri skaðabótamál vegna dómsmáls sem Efling rak fyrir fjóra Rúmena gegn fyrirtækinu ásamt starfsmannaleigunni Menn í vinnu en Efling beið lægri hlut fyrir dómstólum í gær.
„Þessi dómur gefur tilefni til þess að skoða þá stöðu vel. Ýmis konar ummæli hafa verið látin falla í aðdraganda þessa máls. Dómurinn sýnir að þau hafi alls ekki átt rétt á sér,“ segir hún.
Umræða um starfsmannaleiguna Menn í vinnu komst í hámæli eftir að fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði um aðbúnað starfsmanna þar í október árið 2018, í þætti undir fyrirsögninni Svarta hliðin á íslenskum vinnumarkaði.
Málin til umfjöllunar í dóminum áttu sér hins vegar stað í janúar 2019 og voru uppi stór orð um háttsemi fyrirtækjanna tveggja, meðal annars af forsvarsfólki Eflingar.
Eldum rétt og gjaldþrotabú Manna í vinnu höfðu betur í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn fjórum Rúmenum sem störfuðu hjá fyrirtækjunum og öllum kröfum þeirra vísað frá dómi, auk þess sem fyrrum stjórnendur Manna í vinnu voru sýknaðir.
Hildur segir sig og umbjóðanda sinn sátta við niðurstöðuna og hún hafi ekki komið á óvart.
„Þrátt fyrir að forsvarsmenn Eflingar vilji meina að þetta sé þröngur lagatæknilegur skilningur þá er um að ræða lagaákvæði sem er einfaldlega túlkað samkvæmt orðanna hljóðan,“ segir Hildur. Nefnir hún að í aðdraganda niðurstöðunnar vilji hún og umbjóðandinn að málinu sé lokið en Efling hyggst áfrýja dóminum.