Ríki heims verða að taka mun metnaðarfyllri skref til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ætli þau sér að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og tryggja að meðalhitastig á jörðu hækki ekki um meira en tvær gráður – helst undir 1,5 gráðum — fyrir árið 2100.
Ný skýrsla loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna sýnir að uppfærð eða ný landsmarkmið sem ríki heims hafa skilað inn myndu aðeins skila þeim um 0,5% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2010 og 2030.
Þetta hlutfall þyrfti að vera 45% til að ná metnaðarfyllra markmiði Parísarsamkomulagsins, um 1,5 gráða hámarkshækkun, en 25% til að ná hinu, um 2 gráða hámarkshækkun. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna kallar skýrsluna rauða viðvörun fyrir heiminn allan.
Aðeins 74 ríki, sem samanlagt standa undir 30% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, höfðu sent inn uppfærð eða ný landsmarkmið fyrir árslok 2020 eins og þeim bar skylda til. Ísland var ekki eitt þeirra, en uppfærð markmið Íslands voru send inn nú í síðasta mánuði og eru því ekki í skýrslunni.
Uppfært landsmarkmið Íslands kveður á um þátttöku í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, samanborið við árið 1990. Ríki ESB, ásamt Íslandi og Noregi, stefna því að því að draga úr losun á svæðinu í heild um 55% en fyrirhugað er að ná markmiðinu meðal annars með þátttöku fyrirtækja í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir ásamt kröfum um hlutfallslegan samdrátt fyrir hvert ríki sem úthlutað er samkvæmt innri reiknireglum markmiðsins. Má gera ráð fyrir að fyrir Ísland hljóði það upp á um 40% samdrátt.
„Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar ekki sett sér sjálfstætt markmið um samdrátt í losun,“ segir Tinna Hallgrímsdóttir, varaformaður Ungra umhverfissinna. Þessu sé öðruvísi farið í Noregi en landsmarkmið Noregs staðfestir áframhaldandi þátttöku í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja ásamt því að setja sjálfstætt markmið fyrir ríkið um 50-55% samdrátt í heildarlosun án landnotkunar.
„Það sýnir ákveðna stefnufestu í málaflokknum að setja fram eigið markmið. Við hefðum viljað sjá sjálfstæðan metnað hjá íslenskum stjórnvöldum sem sýna hversu mikinn vilja þau hafa til að draga úr losun, í stað þess að fylgja einungis þeim samdrætti sem okkur verður úthlutað og ekki setja markið neitt hærra,“ segir Tinna. Ísland hafi lýst því yfir að það ætli að vera leiðandi í loftslagsmálum, en það sé ekki að sjá á aðgerðum stjórnvalda.
Þá hafa samtökin vakið athygli á skorti á áþreifanlegum markmiðum. „Til stendur að lögfesta markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, en við erum ekki með neitt lögfest markmið í millitíðinni.“
Þegar kemur að loftslagsmálum er stjórnvöldum tamt að setja sér háleit markmið langt fram í tímann. Ef orðum fylgja ekki gjörðir verða það seinni tíma stjórnmálamenn sem þurfa að súpa seyðið. Þannig hafa ríki sett sér ýmis markmið um tiltekinn samdrátt um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir tiltekið ártal, svo sem 2030, en þar með er ekki sagt að samdrátturinn sé hafinn.
Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt landsmarkmiðum ríkjanna 74 verði samanlagður útblástur þeirra af gróðurhúsalofttegundum 2,2 prósentum meiri árið 2025 en var árið 2010, eða sem nemur 14,03 gígatonnum af koltvísýringsígildum. Á árunum 2025-2030 á svo að bæta upp fyrir það með þeim afleiðingum að losun verður 0,5 prósentum minni en árið 2010. Sem fyrr segir þarf sá samdráttur að vera 25-45% eigi markmið Parísarsamkomulagsins að nást.
Vert er þó að taka fram að skýrslan endurspeglar aðeins aðgerðir þeirra 74 ríkja sem sendu inn uppfærð eða ný landsmarkmið fyrir áramót og því er möguleiki að staðan breytist er öll ríki hafa sent inn sín markmið. Hins vegar þykir skýrslan sýna svart á hvítu hve sterk þörf er á róttækari aðgerðum af hálfu þeirra aðildarríkja sem ekki voru með í skýrslunni, eigi að ná markmiðum sáttmálans.