Gosið sést vel af höfuðborgarsvæðinu

Eldgosið sést vel frá holtinu í Hafnarfirði.
Eldgosið sést vel frá holtinu í Hafnarfirði. Ljósmynd/Guðrún Gerður

Gosið í Fagradalsfjalli hefur sést með eindæmum vel frá úthverfum höfuðborgarsvæðisins í kvöld. Ástæðan er ekki að bæst hafi í hraunflæðið heldur er skyggni einfaldlega betra en verið hefur síðustu daga, að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni.

„Þetta er þriðja kvöldið sem ég er á vakt og það fyrsta sem við sjáum eitthvað,“ segir Sigþrúður af veðurstofuhæðinni í Reykjavík. Hún segir flæði gossins nokkuð óbreytt en þó líti út fyrir að tveir minni gígar þess séu að sameinast í einn.

Fylgjast má með gosinu í vefmyndavél mbl.is.

Tekin var ákvörðun um að loka gossvæðinu klukkan 17 í dag vegna gasmengunar, en vind hafði þá lægt og hætt við að eitraðar gastegundir gætu sest í dældir í landslaginu. Staðan verður tekin aftur í fyrramálið en að sögn Sigþrúðar er áfram spáð litlum vindi fram eftir degi.

Otti Rafn Sigmarsson hjá björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík var nýkominn af gossvæðinu þegar blaðamaður náði tali af honum á tólfta tímanum. Hann segir að kvöldið hafi gengið vel hjá sveitinni og lítið verið um fólk í námunda við fjallið í óleyfi.

Ljósmynd/Arna Björg Arnardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert