„Getum ekki látið þetta bitna á íbúum“

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Er eitthvað annað hægt en að hrista hausinn yfir þessu,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar yfir stöðunni sem nú er komin upp í Kópavogi þar sem bænum ber að ganga að tilboði Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf., sem er í eigu Reykjavíkurborgar, fyrir efnivegum malbiks fyrir bæinn árin 2021 og 2022.

Bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkti í fyrradag að ganga til samninga við Höfða hf. en bæjarstjórinn sagðist á fundinum gera það með óbragð í munninum. Aðrir bæjarfulltrúar tóku undir það.

Niðurstöður útboðsins höfðu áður verið lagðar fyrir bæjarráð en afgreiðslu erindisins var frestað, 29. apríl síðastliðinn. 

Ármann segir í samtali við mbl.is að bærinn hafi engan annan kost en að gangast við tilboðinu.

„Þeir eiga einfaldlega lægsta tilboð miðað við útboðsgögn. Vandamálið er ekki okkar megin, vandamálið er að Reykjavíkurborg rekur malbikunarstöð í samkeppnisumhverfi og seilst inn í önnur sveitarfélög. Það er nú eitt þó þeir framleiði fyrir sjálfa sig, en að koma hingað líka, í næst stærsta sveitarfélagið, er afar sérkennilegt,“ segir Ármann. 

Hann segir að mögulega hefði verið hægt að fresta málinu aftur og kafa dýpra í skilmála eða annað, en það þurfti að fara að malbika. „Við getum ekki farið að láta það bitna á íbúunum okkar og viðhaldi gatna að Reykjavíkurborg sé að bjóða í verk hjá okkur,“ segir hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert