Guðlaugur gagnrýndur fyrir samráðsleysi

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Samsett mynd

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu  utanríkisráðherra harðlega fyrir samráðsleysi í tengslum við gerð nýs fríverslunarsamnings Íslands við Bretland, sem var kynntur í morgun. Þingmenn furðuðu sig á því að heyra fyrst af málinu í gegnum fjölmiðla; málið hefði fyrst átt að kynna fyrir utanríkismálanefnd þingsins.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði við upphaf þingfundar í dag, að þetta hlyti að flokkast undir meiriháttar utanríkismál og samkvæmt þingskaparlögum ætti að bera slík mál undir utanríkismálanefnd. Hann sagði að það væri sérkennilegt að lesa um slíka samninga fyrst í fréttum, áður en nefndin hefði fjallað um það á sínum vettvangi.

Ömurlegt að draga prófkjörsbaráttu inn í þingsal

„Ég veit að hæstvirtur utanríkisráðherra er að fara í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á morgun, en það er náttúrulega ömurlegt að vera draga prófkjörsbaráttuna hérna inn í þingsali í staðinn fyrir að reyna nú að efla virðingu Alþingis eins og átti að gera í stjórnarsáttmálanum,“ sagði Logi.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tók þá til máls og benti þingmönnum á að prófkjör stjórnmálaflokka ætti tæplega erindi í umræður um fundarstjórn forseta.

„Það er skoðun forseta, og henni verður ekki breytt.“

Snerti þingið og virðingu þess

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að málið snerti þingið og virðingu þess, er hún tók í sama streng og Logi, og gagnrýndi það harðlega að Guðlaugur hefði fyrst ákveðið að ræða við fjölmiðla um fríverslunarsamninginn, en ekki utanríkismálanefnd sem eigi lögum samkvæmt að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiriháttar utanríkismál.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál, en ekki í Bylgjunni eða í Mogga daginn fyrir prófkjörsslag í flokki hæstvirts utanríkisráðherra.“

Ráðherra reiðubúinn að funda með nefndinni

Guðlaugur Þór sagði að það væri hans vilji að setjast niður með utanríkismálanefnd þingsins til að ræða þessi mál, en hann benti á að málin hefðu verið rædd marg oft í nefndinni.

„Það hefur verið markmið mitt að hafa hana [utanríkismálanefnd] upplýsta um gang mála. Stundum eru mál hins vegar þannig, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að þau ganga hratt fyrir sig, og það er erfitt að upplýsa um eitthvað sem menn vita ekki hvað verður. En hins vegar get ég sagt það að þessi niðurstaða sem fékkst er alveg í samræmi við það sem lagt var upp með. Þannig að það mun ekki koma háttvirtri utanríkismálanefnd á óvart þegar við förum yfir það, sem ég vona að verði gert sem allra fyrst,“ sagði ráðherra. 

Kynning í næstu viku

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, steig einnig í pontu og tók fram að það hefði verið boðað til fundar og nefndin upplýst um gerð þessa fríverslunarsamnings áður en að fréttir af samningunum birtust í fréttamiðlum.

„Í framhaldinu hef ég boðað nefndina til fundar, og boðið upp á marga fundartíma í dag, óskað jafnvel eftir þingfundarhléi hér til að fá kynningu á þessum samningi. En mér hafa borist þau svör frá stjórnarandstöðunni að hún hafi ekki áhuga á að fá þessa kynningu í dag, þannig að kynningin bíður til betri tíma í næstu viku,“ sagði Sigríður. 

Ekki í fyrsta sinn sem kvartað er undan samráðsleysi

Rósa Björk þakkaði Guðlaugi fyrir að lýsa yfir vilja sínum til samráðs við nefndina. „En því miður er það svo að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við þingmenn í háttvirtri utanríkismálanefnd kvörtun undan samráðsleysi. En það er gott að heyra að það er vilji hæstvirts ráðherra að gera það.“

Rósar sagði, varðandi orð Sigríðar, að það hefði verið upplýst um gerð fríverslunarsamnings, þá sé ekki það sama og að kynna fyrir, og vera í ráðuneyti við nefndina um innihald samningsins „við Bretland sem er eitt okkar helsta samningaríki og bandalagsríki þegar það kemur að viðskiptum og öðrum tengslum.“

Utanríkismálanefnd að „hrapa í gæðum“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sagðist hafa séð utanríkismálanefnd „hrapa í gæðum“ á þessu kjörtímabili. Smári, sem á ekki lengur sæti í nefndinni, sagðist oft hafa hugsað er hann átti sæti í nefndinni, „að það væri orðið eitthvað sturlað þegar maður væri farinn að sakna hæstvirts ráðherra Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur úr formannsstólnum. Það er ákveðið merki.“ 

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði áður stigið í pontu til að vekja á því athygli að fáir utanríkisráðherrar hefðu í gegnum tíðina haft jafn mikið samráð við utanríkismálanefnd og Guðlaugur Þór. 

„Ef það er rétt hjá háttvirtum þingmanni Birgi Ármanssyni, að núverandi utanríkisráðherra hæstvirtur hafi verið með óvenju mikið samráð við utanríkismálanefnd. Þá get ég ekki ímyndað mér hversu lítið það hefur verið áður,“ sagði hann og bætti við að það væri til skammar að utanríkismálanefnd væri ekki með upplýsingar um einfalda hluti sem væru í gangi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert