Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ætla að þiggja sæti á lista flokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Brynjar hafði áður gefið það út að hann hygðist ekki taka sæti á listanum í kjölfar prófkjörs flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum í byrjun júní. Brynjar hafnaði í fimmta sæti í prófkjörinu en hann hafði sóst eftir öðru sæti.
Brynjar segir í færslu á Facebook að niðurstaðan hafi verið vonbrigði. Hann hafi þó fallist á að endurskoða þá ákvörðun sína um að hætta í stjórnmálum.
„Eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík taldi ég rétt að kveðja stjórnmálin. Niðurstaðan var vonbrigði fyrir mig enda talsvert frá markmiðum mínum. Þessi ákvörðun féll í grýttan jarðveg hjá mörgum flokksmönnum og var lagt nokkuð hart að mér að endurskoða þessa ákvörðun. Ég féllst á að íhuga það. Mér var bent á af sérfræðingum í eðli prófkjara og Kremlarlógíu flokksins að niðurstaða prófkjörsins hafi verið í raun verið góð fyrir mig. Að lokum náðist að sannfæra mig um að ég hafi verið sigurvegari prófkjörsins, eiginlega stórsigur,“ skrifar Brynjar.
Brynjar segist hafa ákveðið að vel ígrunduðu máli að þiggja sæti á listanum, standi það enn til boða:
„Eftir að hafa legið undir feldi á þriðju viku, kófsveittur og illa lyktandi hef ég ákveðið að þiggja sæti á listanum, ef það stendur þá enn til boða. Ég er sannfærður um að stefna flokksins sé góð fyrir land og þjóð. Ég tel að ég geti orðið að liði í komandi kosningabaráttu og er sannfærður um að sterkur og breiður Sjálfstæðisflokkur er mikilvægur svo að okkur vegni vel, meira nú en oft áður,“ skrifar hann.