Stuðningsmenn Everton á Íslandi „í sjokki“

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton og íslenska landsliðsins.
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton og íslenska landsliðsins. AFP

Íslenskir stuðningsmenn enska knattspyrnuliðsins Everton eru að vonum slegnir vegna frétta undanfarinna daga, um að Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður liðsins, sé til rannsóknar enskra lögregluyfirvalda vegna gruns um brot gegn barni. 

Stuðningsmannaklúbbur Everton á Íslandi telur yfir 200 félagsmenn og hittast þeir reglulega til þess að horfa á leiki, sem þó hefur minnkað töluvert vegna faraldursins. 

„Menn eru bara í sjokki, ég held að það sé alveg sama hver það er,“ segir Eyþór Guðbjartsson, gjaldkeri stuðningsmannaklúbbsins, við mbl.is. 

„Auðvitað vona bara allir að þetta sé bara eitthvað „fake“, að einhver sé bara að hrekkja hann.“

Ef grunur lögreglu reynist þó réttur, segir Eyþór að málið muni bara „fara sína leið“.

„Já, og þá er bara leiðinlegt á alla vegu að þetta hafi komið upp enda er maðurinn bara fulltrúi unga fólksins og hann er búinn að vera fyrirmynd fyrir svo marga. Það yrði bara ömurlegt að þetta hafi gerst.“

Ekkert rætt sín á milli eða við kollega úti

Stuðningsmannaklúbburinn á Íslandi á regluleg samskipti við stuðningsmannaklúbb liðsins í Englandi, en síðan mál Gylfa kom upp hefur þó ekkert enn verið rætt um málið félaganna á milli.

Eins hafa félagsmenn hér á landi ekki komið formlega saman síðan málið kom upp, enda starfið að koma úr dvala eftir faraldurinn og enska deildin auðvitað í sumarfríi.

„Nei, við höfum ekkert komið saman núna eftir þetta og við erum með svona vettvang þar sem við ræðum saman, en þar hefur ekkert komið fram. Ég held að menn geti hreinlega bara ekkert tjáð sig,“ segir Eyþór. 

Eyþór segir þó að auðvitað standi ekkert annað til en að halda áfram með Everton.

„Það breytist ekkert, nei.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert