Fjallgöngumaðurinn Elia Saikaly birti í dag ramma úr síðasta myndbandinu sem tekið var á GoPro-myndavél Johns Snorra.
Tækjabúnaður Johns Snorra fannst í gær, en búnaðurinn mun geta fært haldbæra sönnun fyrir því að John Snorri og Ali hafi náð toppi K2 en látist á leiðinni niður. Sajid Sadpara hefur áður sagt að faðir hans hafi, ásamt John Snorra, náð á toppinn.
Ramminn sem Saikaly birti í dag er tekinn niður á við og sýnir fót klæddan gulum hlífðarfatnaði og fjallgönguskó. Þá virðist glitta í fingur sem klæddir eru svörtum vettlingum.
Svo virðist sem annað myndefni úr vélinni hafi eyðilagst. Saikaly segir að skoða þurfi hvert smáatriði ítarlega, t.a.m. skipti miklu máli hvernig reipið sem sést á myndinni sé á litinn.
Hann segir að allt bendi til þess að mennirnir hafi verið á niðurleið þegar þeir létust. John Snorri var aftastur, í mestri hæð og skammt fyrir neðan hann var Ali Sadpara. Juan Pablo Mohr fannst talsverð neðar, nær búðum fjögur.