Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn Landspítalans hafa þungar áhyggjur af útbreiðslu smita víða um land og þeim verkefnum sem í kjölfarið fylgja. Spítalinn segir að ágæt viðbrögð hafi verið við ákalli um liðsinni við úthringingar en betur má ef duga skal. Meðal annars hefur hópur hjúkrunarfræðinga á Akureyri bæst í úthringihópinn.
Fram kemur í tílkynningu, að í gær hafi verið greint frá smiti á geðdeild. Rakningu er lokið.
„Ekki hafa greinst fleiri smit en nokkuð stór sýnataka verður í dag og er niðurstöðu að vænta síðdegis og í kvöld. Þrettán starfsmenn eru í sóttkví A og 26 í vinnusóttkví vegna smitsins,“ segir í tilkynningu.
Alls liggja 15 sjúklingar með Covid á Landspítala. Þrír eru á gjörgæslu og allir í öndunarvél. Einn er á bráðageðdeild og 11 á smitsjúkdómadeild. Tvær innlagnir voru í gær.
Nú eru 1.359 einstaklingar í eftirliti göngudeildar, þar af eru 324 börn en þau hafa aldrei verið fleiri. „Gríðarlegur fjöldi smita greindist í gær og verkefnin vaxa í samræmi við það,“ segir ennfremur.