Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur gefið undanþágu á samkomutakmörkunum í dag og á morgun fyrir gesti á menningarviðburðum.
Gestir þurfa því ekki að framvísa neikvæðu hraðprófi þegar í t.d. leikhús er komið. Þetta er gert vegna þess að illa gekk fyrir fólk í gær að komast í hraðpróf, sem hægt var að framvísa á leiksýningum í dag og á morgun.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Þjóðleikhúsinu og segir Sváfnir Sigurðarson, upplýsingafulltrúi leikhússins, í samtali við mbl.is að þetta sé mikið gleðiefni. Með þessu verður hægt að tryggja að allir þeir sem áttu miða á leiksýningar um helgina geti mætt.
„Fyrst og fremst erum við glöð að geta haldið áfram sýningarhaldi, tekið á móti okkar gestum og að enginn þurfi frá að hverfa. Á sama tíma leggjum við áherslu á öruggt og ábyrgt sýningarhald þannig að gestir helgarinnar geti notið skemmtilegra sýninga á öllum sviðum leikhússins áhyggjulausir,“ segir Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri um undanþáguna.
Eftir helgi verður þó, eins og kynnt var í gærmorgun, skylt að framvísa neikvæðu hraðprófi við komuna í leikhús eða á aðra menningarviðburði. Þannig eru 500 manna samkomutakmarkanir í gildi að þessu gefnu, en almennar takmarkanir miðast við 50 manns hvort sem er innan- eða utandyra.