„Verkalýðshreyfingin hefur undanfarin ár verið óvægin í málflutningi sínum gagnvart atvinnurekendum og þá ekki hvað síst ferðaþjónustufyrirtækjum.
Talsmenn hennar hafa margsinnis haldið því fram opinberlega að vinnumarkaðsbrot séu algeng í greininni.“ Þetta segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, þegar borin eru undir hana þau ummæli Agniezku Ewu Ziólkowsku, formanns Eflingar, í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, að mikið sé um launaþjófnað og að svindlað sé á starfsfólki í fyrirtækjum.
„Við hjá SAF höfum brugðist við því með því að kalla eftir tölfræði frá t.d. ASÍ og Eflingu yfir meintan fjölda brota, hvers eðlis þau eru, hversu mörg fyrirtæki standa að baki þeim og hvernig þeim lyktaði. Við því hefur ekki verið brugðist – sem gefur til kynna að ekki sé mikið kjöt á beinum þessara ásakana,“ segir Bjarnheiður í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Hún segir að þegar upp komi ágreiningur um túlkun kjarasamninga, þá skilgreini verkalýðshreyfingin hann umsvifalaust sem brot „og oftar en ekki „launaþjófnað“ og gefur þar með til kynna að ásetningur atvinnurekenda liggi þar að baki. Reynsla okkar sýnir hins vegar að það á einungis við í örfáum undantekningartilfellum og ekki oftar í ferðaþjónustu en í öðrum atvinnugreinum,“ segir hún.
„Við höfum ekki fengið mörg mál af þessu tagi beint inn til okkar – enda er ágreiningur um túlkun kjarasamninga oftast leystur á milli atvinnurekanda og launþega – þó að stundum þurfi vissulega að kalla til sérfræðinga til að túlka kjarasamningana,“ segir Bjarnheiður og bætir við að sér finnist „það ansi gróft og ófaglegt hjá nýkjörnum formanni Eflingar að saka nafngreint fyrirtæki opinberlega um alvarlegt brot á vinnumarkaði“.