Tvö hundruð björgunarsveitarmenn að störfum

Verkefni björgunarsveita eru orðin rúmlega 70 talsins það sem af …
Verkefni björgunarsveita eru orðin rúmlega 70 talsins það sem af er kvöldi. Ljósmynd/Landsbjörg

Um 200 björgunarsveitarmenn sinna nú verkefnum víðs vegar á landinu vegna óveðursins sem nú gengur yfir og eru verkefni björgunarsveita orðin rúmlega 70 talsins það sem af er kvöldi.

„Veðrið er komið, það er alveg ljóst. Það er búið að kalla út björgunarsveitir í flestum landshlutum, ef ekki öllum,“ segir Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Hann segir verkefnin af ýmsum toga.

„Þar sem er hvasst veður eru að fjúka þakplötur og fleira og þar sem er lélegt skyggni eða ófærð eru náttúrulega fastir bílar og fólk í vandræðum.“

Otti segist búast við að björgunarsveitir verði að störfum á …
Otti segist búast við að björgunarsveitir verði að störfum á suðvesturhorninu í allt kvöld og jafnvel lengur. Ljósmynd/Landsbjörg

Fólk haldi sig heimafyrir

Otti segir að ekki sé lengra en tvær vikur frá því slíkt ofviðri gekk yfir landið. Það hafi gengið vel og svipað sé uppi á teningnum núna. Lykilatriði sé að fólk haldi sig heimafyrir.

„Það gekk bara vel. Fólk hlustaði á viðvaranir og það voru fáir á ferli. Það er svipað núna, fáir á ferli og þá gengur vel.“

Hann segist búast við að björgunarsveitir verði að störfum á suðvesturhorninu í allt kvöld og jafnvel lengur en búist er við að viðvörunin vari til miðnættis. „Svo á aftur að vera vont veður í fyrramálið, þannig við vitum ekki alveg hvað við verðum lengi á ferðinni.“

Otti segir að upp úr miðnætti sé búist við að veðrið gangi yfir landið og þá versni það fyrir norðan.

„Þannig við verðum að væntanlega í alla nótt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert