„Allt í einu hrynur hann á hliðina á annan kastala. Einhver börn voru þarna inni í, þar á meðal barnið mitt. Börnin voru auðvitað mikið skelkuð,“ segir Guðmundur Ragnar Einarsson sem staddur var með fjölskyldu sinni á vorhátíð Breiðabliks þegar loft fór úr einum hoppukastalanna á svæðinu.
Hann segir foreldra strax hafa farið að kastalanum til að sækja börnin sín þar sem þau hafi ekki komist út úr kastalanum. „Þetta gerðist mjög hratt," segir hann og bætir við að ringulreið hafi ríkt.
Guðmundur segir gott að hoppukastalinn hafi verið innandyra og hafi því ekki getað fokið.
Tæplega eitt ár er liðið síðan hoppukastali tókst á loft á Akureyri með þeim afleiðingum að sex börn voru flutt til aðhlynningar á sjúkrahús, þar af eitt á gjörgæslu. „Út af því sem gerðist á Akureyri eru allir á tánum,“ segir Guðmundur.
Sömuleiðis minnist hann þess að fyrir nokkrum árum hafi hoppukastali í Hveragerði einnig fokið. Eldri dóttir Guðmundar var í honum þegar atvikið átti sér stað. „Ég held að punkturinn sé sá að það séu nokkur svona slys búin að gerast. Verðum við þá ekki að fara hugsa betur um þetta?“ spyr Guðmundur.
Hann tekur þó fram að hann hafi ekkert út á Breiðablik að setja, svona slys geti gerst sama hversu vel er fylgst með hoppukastölunum.
Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, segir í samtali við mbl.is að á vorhátíðinni hafi kynning farið fram á nýju verkefni, Kyndlinum, og að í boði hafi verið pylsur fyrir almenning, auk þess sem krökkum gafst kostur á að fara í hoppukastala.
Ákveðið var að hafa kastalana innanhúss í öryggisskyni, sökum íslenskrar veðráttu. Því miður hafi rafmagni slegið út með þeim afleiðingum að loft fór úr tveimur hoppukastölum af fjórum.
„Það er leiðinlegt að þetta hafi átt sér stað og skyggt á annars frábæran dag hjá félaginu og við hörmum það,“ segir Eysteinn, en engar fregnir hafa borist af meiðslum.