Jarðskjálfti, 4,1 að stærð, varð klukkan 9.20 í morgun 7,3 kílómetra norð-norðvestur Gjögurtá, vestarlega á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu.
Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.
Tilkynningar hafa borist Veðurstofunni að skjálftinn hafi fundist á Ólafsfirði, Dalvík og í Þingeyjarsveit. Gera má ráð fyrir að skjáfltinn hafi fundist víða á Tröllaskaga. Um 60 jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu frá því um miðnætti. Síðast mældust jarðskjálftar af þessari stærð í Október 2020.
Skjálfti upp á 3,5 mældist á sömu slóðum skömmu fyrir klukkan tvö í nótt og hafa eftirskjálftar mælst á svæðinu síðan.
Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni sagði í samtali við mbl.is í morgun að mikil virkni hefði verið á þessu svæði í júní 2020:
„Það má segja kannski að að þetta sé endurtekið efni; við sjáum landris í Þorbirni og svo smá virkni til að minna á sig þarna fyrir norðan.“