„Hér er vissulega verið að snerta á mjög mikilvægu máli sem varðar heilbrigðisþjónustunni í landinu og því er haldið fram að með því að láta Landspítalann hafa aukið fjármagn þá leysist öll okkar vandamál. Ég held að málið sé því miður ekki svo einfalt,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í umræðu um stöðuna á Landspítalanum.
Fjórir hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum á bráðamóttökunni vegna langvarandi álags og lélegs aðbúnaðar. Auk þess tóku tíu uppsagnir gildi í mars. Hjalti Már Björnsson, starfandi yfirlæknir á bráðadeild Landspítala, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku vegna þess að ástndið síðustu vikur væri það versta í sögu bráðamóttökunnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna um stöðuna og sagði að í umsögn Landspítalans um fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 væri bent á mikið álag spítalans vegna Covid og hækkandi aldurs þjóðarinnar.
„Þess vegna langar mig að spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra hvort það sé ekki full ástæða til þess að endurskoða fjármálaáætlun í ljósi þess neyðarástands sem ríkir á bráðamóttöku Landspítalans og ætla spítalanum meira fé?“ spurði Logi.
Bjarni sagði að aukið fjármagn til Landspítalans myndi ekki leysa öll vandamál. Mönnunarvandinn á spítalanum einn og sér yrði heldur ekki leystur með aukinni fjárheimild til Landspítalans.
„Ég hélt að við værum sammála um það að ástandið á bráðamóttökunni verður ekki leyst með öðrum hætti en þeim annars vegar að bæta mönnunina en hins vegar með því að tryggja að fólk sem á ekki að liggja þar inni á göngum heldur vera annars staðar fái rými. Til að gera það höfum við verið að opna á undanförnum árum rými, ég nefni það sem hefur verið gert á Vífilsstöðum og ég nefni það sem hefur verið gert á Landakoti. En við höfum ekki einu sinni getað náð að manna þau pláss sem þó áttu að standa opin þar. Þannig að fjármagnið hefur verið til staðar en okkur hefur ekki tekist að fá fólk til að sinna plássunum. Þetta eru staðreyndir,“ sagði Bjarni og ítrekaði að fjármagnið hefði ekki skort.