Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra áttu í hvössum orðaskiptum á Alþingi í dag í óundirbúnum fyrirspurnatíma.
Líkti Kristrún tillögum Bjarna um framtíð ÍL-sjóðs við misheppnaða fjármálastjórn Liz Truss, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, á meðan Bjarni dró lagaskilning Kristrúnar í efa.
„Hæstvirtur fjármálaráðherra [...] heldur blaðamannafund um hvernig hann ætlar að spara þjóðinni fúlgur fjár með því að knýja gamla ÍL-sjóð í þrot,“ sagði Kristrún og bætti við að íslenskir fjármálamarkaðir myndu ekki kaupa þá hugmynd að útvista ríkisábyrgð sjóðsins.
Taldi hún hugmyndir Bjarna fela í sér tilfærslu á pólitískri skuld yfir á lífeyrissjóði landsins.
„Það er í hæsta máta óábyrgt að bera þessa vúdú-hagfræði á borð fyrir þjóðina. Annaðhvort skilur hæstvirtur fjármálaráðherra ekki hvernig einfaldar fjármálaafurðir virka eða hann er að ljúga að þjóðinni,“ sagði Kristrún.
Steig Bjarni því næst í pontu og taldi Kristrúnu viðhafa öfugmæli. Áhyggjuefni væri ef stjórnvöld myndu víkja sér undan ábyrgð á máli ÍL-sjóðs, sem hann hafði vakið athygli á.
„Þegar háttvirtur þingmaður ætlar að saka mig um að skilja ekki fjármálamarkaði þá ætla ég að halda því fram að háttvirtur þingmaður skilji ekkert í lögfræðinni í þessu máli. Vegna þess að eina sem ég hef gert á þessum tímapunkti er að vekja athygli á stöðu ÍL-sjóðs sem á ekki fyrir skuldbindingum sínum,“ sagði Bjarni og hélt áfram:
Ég hef sagt að það sé mitt mat en á endanum ákvörðun Alþingis að við ættum gera upp sjóðinn á grundvelli þeirra loforða sem voru gefin á sínum tíma, sem felur í sér fullt uppgjör gagnvart öllum kröfuhöfum á grundvelli ríkisábyrgðarinnar með slitum ÍL-sjóðs,“ sagði Bjarni og bætti við að slíkt myndi muna miklu fyrir ríkissjóð.