Urður Egilsdóttir
„Þetta var ekki á formlegri dagskrá en auðvitað ræðum við utan dagskrár líka. Þetta er stórt mál sem er í gangi núna,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, spurður hvort ríkisstjórnin hafi rætt stöðuna sem nú er komin upp í kjaradeilum eftir að VR sleit viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA).
Mun ríkisstjórnin bregðast við með aðgerðum?
„Fyrst og fremst þá eru þessi atriði til viðræðna á milli samningsaðilanna en við fylgjumst mjög vel með,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, tjáði mbl.is að sambandið hefur ekki slitið kjaraviðræðum við SA. Þá hefur Landssamband íslenskra verzlunarmanna ekki heldur slitið viðræðum.
Næst verður fundað á þriðjudag með Ríkissáttasemjara og SA.
Guðmundur segir að fundur forsætisráðherra með aðilum vinnumarkaðarins í gær hafi verið mjög mikilvægur.
„Þetta er auðvitað í höndum samningsaðila eins og staðan er núna,“ segir Guðmundur Ingi.